Evróputilskipun um gagnsæi í launum | Sækja rafbók hér.
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfestir í PayAnalytics
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur fjárfest fyrir 65 milljónir króna í hugbúnaðarfyrirtækinu PayAnalytics .
PayAnalytics hefur þróað jafnlaunalausn í skýinu sem hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Lausnin er nú þegar notuð af rúmlega 50 fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi sem samanlagt hafa yfir 30.000 starfsmenn, eða um 14% af íslenskum vinnumarkaði.
Það sem gerir lausn PayAnalytics frábrugðna öðrum lausnum er að eftir að búið er að mæla launabilið gerir hugbúnaðurinn tillögu að launabreytingum niður á einstaka starfsmenn til að loka launabilinu. Sömuleiðis sýnir hugbúnaðurinn áhrif launaákvarðana á launabilið áður en þær eru teknar. Markmið PayAnalytics er að koma öflugu launagreiningartóli í hendurnar á stjórnendum, mannauðsstjórum og ráðgjöfum svo taka megi upplýstar og gagnadrifnar ákvarðanir um laun. Þannig er ekki bara hægt að loka launabilum hvar sem þau finnast heldur líka halda þeim lokuðum. Hugbúnaðurinn vinnur vel með hvaða launa- og mannauðskerfi sem er.
Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs:
Ísland hefur tekið forystu í jafnréttismálum. PayAnalytics sprettur upp í sterku jafnréttisumhverfi og hefur þróað lausn sem skarar fram úr á heimsvísu. Fyrir utan að vera góð fjárfesting styður Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins með fjárfestingu sinni við útflutning á íslenskri þekkingu og þau jafnréttisgildi sem hér hafa verið byggð upp og hlotið hafa alþjóðlegar viðurkenningar. Við eru því mjög spennt fyrir samstarfinu við PayAnalytics teymið og teljum að öflugt tengslanet okkar og þekking muni gagnast við áframhaldandi uppbyggingu og vöxt félagsins.
Margrét Vilborg Bjarnadóttir, stofnandi og stjórnarformaður PayAnalytics:
Jafnlaunalausn okkar er notuð af flestum öflugustu fyrirtækjum landsins. Á sama tíma er lagaumhverfið að breytast hratt út um allan heim. Í Bretlandi þurfa fyrirtæki nú að mæla og birta launamun kynjanna á hverju ári, í Frakklandi verður bráðum farið að sekta fyrirtæki sem ekki eru að vinna í að minnka launamuninn, og dæmin eru fleiri. Á sama tíma hefur orðið hröð viðmótsbreyting sem enn hefur ýtt undir þörfina fyrir lausnina okkar. Við höfum notið öflugs stuðnings Tækniþróunarsjóðs sem hefur komið okkur þangað sem við erum í dag og með fjárfestingu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins getum við haldið tæknilegu forskoti okkar og hraðað uppbyggingu okkar á markaðssvæðum erlendis.
PayAnalytics vann árið 2016 Gulleggið, sem er frumkvöðlasamkeppni Icelandic Startups. PayAnalytics var árið 2018 valið Best Social Impact Startup og Best Newcomer á Íslandi í Nordic Startup Awards. Félagið var árið 2019 valið besta sprotafyrirtækið á Wharton People Analytics Conference, sem er ein virtasta ráðstefna sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Margrét V. Bjarnadóttir var valin háskólakona ársins á Íslandi árið 2019 m.a. vegna samfélagslegra áhrifa rannsókna hennar um jafnlaunamál. Margrét vann sömuleiðis Global Women Inventor and Innovator Network Award fyrir PayAnalytics árið 2019.
Um Nýsköpunarsjóð
Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Í eignarsafni sjóðsins eru nú 25 fyrirtæki og hefur sjóðurinn fjárfest í yfir 150 fyrirtækjum á síðustu 20 árum.